21 October 2010

Afneitanir sem ekki eru

Hannes Hólmsteinn og Skafti Harðarson hafa nú báðir svarað opinberlega þeirri afdráttarlausu ásökun Egils Helgasonar, að Hannes skrifi fyrir Skafta og smáfuglana á AMX. Málfærslur þeirra er svipaðar, enda viðurkenna þeir allavega það að þeir hafi ákveðið samráð í skrifum sínum. Hins vegar vekur það athygli mína að hvorugur þeirra segir afdráttarlaust að Hannes sé ekki beinlínis höfundurinn að neinu því sem birst hefur á bloggi Skafta eða á AMX. Einungis eru færð óbein rök fyrir því að svo sé ekki. Myndu menn sem verða fyrir svona harðri ásökun algjörlega að ósekju ekki afneita henni með afdráttarlausari hætti en þetta? Hér tel ég mig finna lykt af úthugsuðum mælskubrögðum.

20 October 2010

Skafti orðinn sjálfstæður?

Sú ánægjulega þróun virðist hafa orðið að Skafti er farinn að skrifa sjálfur á bloggið sitt. Þetta sést glögglega á efnistökunum í síðustu pistlum hans, sem eru fjölbreyttari og merkilegri en áður. Einnig er það sterk vísbending að Skafti er farinn að svara þeim sem rita athugasemdir og skrifa greinilega út frá sínu eigin brjósti, samanber þegar hann tilkynnir framboð sitt til stjórnlagaþings. Þetta tel ég jákvæða þróun sem ég vona að haldi áfram, því þar sem þetta blogg er stofnað í kringum þá kenningu að Hannes sé að skrifa fyrir Skafta, þá verður mín ekki þörf lengur ef þetta er ekki lengur tilfellið!

P.S. Ég sé að það er vísað á mig af bloggi Egils Helgasonar í dag. Þar sem það er djúpt á einni merkustu færslunni hér ætla ég bara að hlekkja á hana handa þeim sem hingað rata inn í dag.

10 October 2010

Af þagnameisturum

Þemað er: Þorvaldur Gylfason er þagnameistari (og nú síðast Ólafur Ragnar Grímsson líka).


Þorvaldur Gylfason kallaði Styrmi Gunnarsson 'þagnameistara' í pistli nokkrum í Fréttablaðinu fyrir tæpu ári. Þetta virðist hafa farið eitthvað illa í Hannes Hólmstein, sem kaus að snúa þessu frekar upp á Þorvald sjálfan; að vísu ekki með berum orðum, en kjarninn er greinilega þarna ('Þorvaldur hefur ekki í eitt einasta skipti — í mörg hundruð greinum sínum — gagnrýnt þá spillingu og þá fjárglæfra, sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnandi Fréttablaðsins, hefur reynst sekur um og upplýst verið um.').


Smáfuglarnir á AMX hafa síðan haldið þessu þema á lofti með því að beinlínis kalla Þorvald þagnameistara, eins og sjá má hér, hér, hér, og hér. Skafti Harðarson hefur einnig tekið þátt í þessu; það má sjá hér, hér og hér.


Athyglisvert er að í öðrum pistli Skafta þarna vísar hann í pistil Smáfuglanna með orðalaginu 'Þar er bent á að Þorvaldur Gylfason sem kallaði annan mann þagnameistara honum til háðungar hefur þagað í fimm ár um vammir og skammir Baugsfeðga.Þetta er auðvitað athyglisvert í ljósi þess að í fyrsta þagnameistarapistli Skafta, sem er skrifaður um mánuði áður, bendir Skafti einmitt á þetta sjálfur. Orðalagið er því undarlegt; eðlilegra væri að Skafti segði sem svo að þarna væru Smáfuglarnir að taka undir með honum, í stað þess að láta sem þetta séu einhverjar nýjar upplýsingar (eins og orðalagið bendir til, að mínu mati). Þetta er þó lítið atriði, en engu að síður vert að minnast á.


Nú má vera að eftirfarandi teljist ómálefnalegt, en í öllu þessu tali um þagnameistara er erfitt annað en að minnast þess að Hannes Hólmsteinn hefur sjálfur lýst því hvernig hann ákvað að gerast þagnameistari þegar kemur að Davíð Oddssyni:
Mér þótti þetta miður. Ég sagði Gunnlaugi Sævari strax frá þessu samtali, og hann ráðlagði mér að skýra afstöðu mína betur út fyrir Davíð. Ég settist niður og skrifaði Davíð stutt bréf, þar sem ég gerði þetta, en kvaðst skilja sjónarmið hans mjög vel. Þegar öll spjót stæðu á honum (eins og vissulega var í þessu Kínamáli), ættu vinir hans auðvitað ekki að gera neitt það, sem skilja mætti opinberlega sem árás á hann. Þeir ættu frekar að láta gagnrýni sína í ljós við hann beint og milliliðalaust. Sá er vinur, sem til vamms segir, en máli skiptir, hvar það er gert og undir hvaða formerkjum.
Sumsé; þessi stjórnmálaprófessor hefur viðurkennt opinberlega að hann hafi ákveðið árið 2002 að láta aldrei frá sér nokkuð sem 'skilja mætti opinberlega sem árás á Davíð', heldur frekar tala við hann sjálfan í kyrrþey (en miðað við hvernig þessu tiltekna máli lyktaði hvarflar nú að manni að þessi leið hafi frekar verið líkleg til að enda með því að Davíð sannfærði Hannes, en öfugt). Þessu virðist Hannes líka hafa fylgt stíft eftir, og gott betur; prófessorinn hefur ekki einungis látið hjá líða að gagnrýna Davíð eða nokkuð sem honum tengist, heldur hefur hann varið hann af fullri hörku í opinberri umræðu þegar svo ber undir, og ráðist gegn andstæðingum hans. Vináttan við Davíð gengur fyrir, eins Hannes segir sjálfur; hún er greinilega æðri til að mynda öllum akademískum skyldum. Það sem er þó kannski alvarlegast er að Hannes viðurkennir ekki opinberlega að hann hafi tekið þessa ákvörðun fyrr en hátt í átta árum síðar, þannig að í millitíðinni var hulin fyrir almenningi sú staðreynd að þessi fræðimaður hafi meðvitað og markvisst beitt þessari reglu í málflutningi sínum.


Að lokum má nefna að það er viss kaldhæðni fólgin í því að þessi pistill minn komi beint á eftir pistli þar sem fjallað er um þögn prófessorsins í öðru máli, en það er tilviljun ein; ástæðan fyrir þessum pistli er nýjasti pistill Skafta, þar sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur bæst í hóp þagnameistara.

Þögn sama og samþykki?

Nú hafa ásakanir þess efnis að Hannes Hólmsteinn skrifi pistla Skafta Harðarsonar að miklu eða jafnvel öllu leyti legið í loftinu um hríð. Nú síðast hélt hinn víðlesni bloggari Egill Helgason þessu fram fullum fetum. Það er nánast ómögulegt að þetta hafi farið framhjá þeim Hannesi og Skafta. Það er hið minnsta ljóst að Hannes veit vel af þessum ásökunum, samanber það að hann hefur tjáð sig um þær á bloggi Teits Atlasonar (án þess að svara þeim í raun). Hannes hefur jafnframt tjáð sig með skírum og beinum hætti um ásökun af sama toga áður; það má sjá hér ('Um amx.is get ég sagt það, að margt það, sem þar birtist, er eins og talað út úr mínu hjarta, en því miður á ég ekki heiðurinn af því að hafa skrifað það. Ég er líka hissa á því, ef einhver telur, að mér nægi ekki að blogga daglega á Pressunni.').

Af þessum sökum vekur furðu að Hannes skuli sitja þegjandi undir svo alvarlegri ásökun nú. Næg hefur hann færin til að tjá sig; hann gæti jafnvel skrifað athugasemd við blogg Skafta til að árétta þetta. Skafti gæti auðvitað líka hæglega áréttað þetta ef hann vildi, en hann virðist reyndar aldrei tjá sig um sína hagi á bloggi sínu, hverju svo sem það sætir nú!

05 October 2010

Griðrof

Þemað er: Núverandi ríkisstjórn rauf 'grið' sem hefð hefur verið fyrir milli flokkanna með því að setja Davíð Oddsson af í Seðlabankanum, sem og með því að senda Geir Haarde fyrir landsdóm - og hún sýndi jafnframt valdníðslu með þessum gjörðum.

Þetta má sjá hjá Hannesi hér, hjá AMX hér, og hjá Skafta hér.

Að vísu er ölítill blæbrigðamunur á því hvernig hlutirnir eru orðaðir milli 'höfunda', en meginþemað er þó skýrt, og greinilega sameiginlegt.

Andlegt ofbeldi og lygar

Á bloggi Skafta Harðarsonar hangir maður sem kallar sig Guðmund 2. Gunnarsson. Hann hef ég nokkrar rimmur háð við í athugasemdum við bloggfærslur Skafta, en því miður eru þær allar horfnar núna - eða það er að segja mín hlið þar er horfin. Eftir standa heilmiklar einræður Guðmundar annars við sjálfan sig. Þetta angrar hann samt bersýnilega ekki neitt, ekki frekar en það almennt að mér hafi verið hent þarna út; hann styður það að mér sé haldið úti afdráttarlaust. Hans helsta hlutverk þarna virðist vera að herja á alla þá sem eru að minnsta leyti ósammála Skafta með andlegu ofbeldi og kúgunartilburðum. Ofan á þetta bætast líka oftar en ekki lygar og óheiðarleiki, eins og þegar hann fullyrðir að ég sé 'fjölnikkungur', án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því - sú lygi á víst að réttlæta það að mér sé hent út af bloggi Skafta, enda hefur Guðmundur annar fáar málefnalegar ástæður fyrir þeirri kröfu. Hans heimsmynd er svört og hvít, og þeir sem eru svartir í hans augum eru heimskir ræflar, og réttlausir með öllu; innlegg þeirra til umræðunnar ekki svaraverð með öðru en skætingi og kúgun. Hans vera þarna á Skaftablogginu á stóran þátt í því að ég hef svona mikinn áhuga á því að rannsaka bloggið og gera athugasemdir við það.

Tilefni þessarar færslu minnar voru þessi nýjustu skrif Guðmundar annars, sem ég held að dæmi sig í rauninni algjörlega sjálf. Dagskipanin er hræsni; fyrst aðrir bloggarar loka á ákveðna aðila sem þeim líkar ekki við, þá er réttlætanlegt í augum Guðmundar annars að Skafti geri það líka. Guðmundur annar hikar ekki við að styðja þá sem honum líkar vel við heilshugar í því sem hann úthúðar þeim sem honum líkar illa við fyrir að stunda. Eini siðferðilegi viðmiðunarpunktur hans er hver á í hlut hverju sinni; almenn prinsipp virðast hann engu máli skipta. Samt sem áður er einn uppáhaldsfrasi Guðmundar víst Svo skal böl bæta að benda á annað verra - sem er þá hræsni ofan á hræsnina. Geri aðrir betur.

Eldri skrif um kúgunartilburðina sem uppi eru hafðir á bloggi Skafta:


29 September 2010

Otkell og Mörður

Þemað er: Jón Ásgeir er Otkell Skarfsson; Egill Helgason er Mörður Valgarðsson.

Þetta er þema sem virðist eiga uppruna sinn hjá Agli sjálfum. Hannes/Skafti/Smáfuglarnir eru hins vegar greinilega svo hrifnir af þessu að þeir núa Agli þessu reglulega um nasir, því þeim þykir það hinn mesta skömm að Egill hafi ekki tekið afgerandi afstöðu í Baugsmálinu (sem átti víst samt alls ekki að vera pólitískt), með Davíð og gegn Baugi.

Hannes hefur að mér sýnist tekið þetta fyrir tvisvar; hér og hér.

Skafti virðist þó hrifnari af þessu; hann tæklar þemað hér, hér, hér og hér.

Hrifnastir eru hins vegar smáfuglarnir á AMX, eins og sjá má hér, hér, hér, hér, hér og hér.

Skemmtilegt nokk þá eru þetta allt saman sléttar tölur í vaxandi röð. Það er þó líklegast tilviljun, rétt eins og þetta samræmi í efnistökum milli Hannesar, Skafta og smáfuglanna.

Síuprófun

Ég framkvæmdi síuprófun hjá Skafta rétt í þessu. Komst að raun um að hann virðist blokka sjálfkrafa allar athugasemdir þar sem 'Mölur' kemur fyrir, hvort sem það er nafn athugasemdaritara, eða það kemur fyrir í athugasemdinni sjálfri. Það tók sumsé margar tilraunir að fá þessa athugasemd inn, og það verður fróðlegt að sjá hvort hún helst inni. Það væri líka fróðlegt að fá að vita nákvæmlega hversu mörg nöfn og hversu margar IP-tölur hann er með í banni, og fá svör við því af hverju hann er að þessu (og af hverju mynstrið virðist vera það að langtryggasta, ef ekki eina leiðin til að fá á sig bann er að tala um hvað skrif Skafta líkjast skrifum Hannesar Hólmsteins). Þau hafa ekki fengist hingað til; allt fer fram í stökustu kyrrþey, og viðhlæjendum Skafta, sem skrifa reglulega athugasemdir við færslur hans honum til stuðnings (en þeim sem andmæla honum, og eru því stimplaðir sem 'óvinir', til andlegs ofbeldis), virðist nákvæmlega sama - enda er draumaheimur þeirra væntanlega sá þar sem engin andstæð sjónarmið sjást nokkurn tímann hjá Skafta, nema þá helst einhverjir strámenn sem þeir ráða auðveldlega við. Þeir viðra ekki heldur neinar áhyggjur af því að öllum athugasemdum mínum aftur í tímann var eytt af blogginu, enda er ég víst ekki í hópi þeirra sem þeim finnst mikilvægt að njóti málfrelsis hvort eð er.

Hér er afrit af þessari athugasemd sem ég náði fyrir rest að pota inn, svona ef ske kynni að hún hyrfi:


Þetta er mjög eðlilegt og sambærilegt við það sem fram fór á þinginu í dag, enda liggur fyrir mörg hundruð blaðsíðna skýrsla rannsóknarnefndar um þessar misgjörðir Steingríms.
P. S. Værirðu til í að hætta að láta kommentakerfið blokka sjálfkrafa komment sem ég skrifa undir mínu rétta nafni, ef ég lofa á móti að ræða ekki það sem þú vilt augljóslega ekki að ég ræði? Eða bara almennt taka niður allar þessar síur sem þú hefur verið duglegur við að setja upp til að loka á mig? Það er svo mikið vesen að fara framhjá þessu alltaf.


Sjá eldri færslur um ritskoðunina hjá Skafta og tilurð  hennar:

Grímulaus ritskoðun
Lítil saga

28 September 2010

Dreyfus

Þemað er: Ákærur til Landsdóms eru sambærilegar við Dreyfusarmálið og/eða eru ekkert nema pólitískar ofsóknir.

Þetta má sjá hér hjá Skafta, og hér hjá AMX. Um mjög svipað leyti og Dreyfusarfærslan birtist hjá Skafta birtist síðan þessi færsla hjá Hannesi. Þarna er að vísu ekkert minnst á Dreyfus, en þemað er greinlega það sama að öðru leyti; það að þessar ákærur eru pólítiskar ofsóknir og ekkert annað. Smáatriðum á borð við það að bæði Hannes og Skafti telja mjög ólíklegt að Geir verði sakfelldur ber einnig saman.

Þessar færslur Skafta og Hannesar birtast síðan nánast um leið og atkvæðagreiðslum um ákærur lauk á þingi. Erfitt er að verjast þeirri tilhugsun að til hafi staðið fyrirfram að birta þessar færslur um leið og atkvæðagreiðslunni lauk, með einmitt þeim þemum sem í þeim eru (nema auðvitað hefðu þemun þá birst með aðeins öðruvísi formerkjum ef enginn hefði verið ákærður af þinginu; þá hefði því líklegast verið fagnað að ekki hafi verið efnt til þessara 'pólitísku ofsókna').

22 September 2010

Snögg viðbrögð

Klukkan 15:57 í dag birtist þetta á Pressubloggi Hannesar Hólmsteins.

Klukkan 16:05 birtir AMX þetta fuglahvísl um bloggfærsluna.

Þarna líða sumsé innan við 10 mínútur. Eru smáfuglarnir að vakta Pressuna svona stíft, og svona fljótir að rjúka til að skrifa um það sem Hannes setur þangað inn, eða er hugsanlega annarra skýringa að leita á þessu?

Reyndar er ég sjálfur frekar fljótur að bregast við smáfuglunum hér, þannig að það má vera að þetta sé hreinlega noja í mér í þetta skiptið; að ég sjái bara það sem ég vil sjá.

Grímulaus ritskoðun

Á bloggi Skafta er, líkt og ég hef lýst hér áður, öllum athugasemdum þar sem viðruð eru meint tengsl Skafta og Hannesar Hólmsteins eytt grimmt - en öðrum ekki. Þetta fer fram í kyrrþey og blogghöfundur hefur engar skýringar gefið á þessu. Einnig lokar blogghöfundur markvisst fyrir þær IP-tölur sem athugasemdir af þessu tagi berast frá, og það nýjasta frá honum virðist vera að setja einnig upp síur sem blokka ákveðin orð (þetta er allt saman hægt í Wordpress, bloggkerfinu sem Eyjubloggið keyrir á) - hlekkir á þetta blogg hér virðast til dæmis vera bannaðir.

Hér er því um afgerandi mynstur að ræða sem bendir til að það sé eitthvað afar viðkvæmt mál að svo mikið sem nefna það að líkindi séu milli skrifa Skafta og skrifa Hannesar; þetta er greinilega líkt og að nefna snöru í hengds manns húsi.

Þetta eru nýjustu athugasemdirnar við þessa færslu sem hafa verið látnar hverfa í kyrrþey:





  • Hér situr blogghöfundur greinilega sveittur við í kvöld og eyðir athugasemdum og setur upp síur til að meina ákveðnum aðilum að tjá sig; ekki síst mér. Ekki er slíkt beinlínis í anda frjálshyggjuhetja á borð við John Stuart Mill, sem var á því að ef skoðun er rétt þá á hún að þola skoðun og andmæli, og því sé hefting á frelsi til að tjá hvaða skoðanir sem er aldrei réttlætanlegt. Ef sú skoðun mín að Hannes haldi vel mögulega hér á penna er svona röng hjá mér, af hverju má hún ekki fá að standa hérna? Ég fullyrði að blogghöfundur virðist vera að beita öllum mögulegum brögðum sem honum hugkvæmist til að meina mér að tjá mína skoðun.
    Og þessum orðum mínum verður eytt fyrr eða síðar. Sanniði til. Það fjarar senn undan tilgangi þess að hafa opið fyrir athugasemdir hér fyrst blogghöfundur er svona ákafur í að kæfa ákveðin sjónarmið.



  •   Mŏlur // 21.9 2010 kl. 22:59








  •   Goggi // 22.9 2010 kl. 00:38
    LOL, Skapti – / Hannes – (Ég kann ekki einu sinna að gera svona löng bandstrik eins og hannes gerir) eru sveittir í að ýta á delete takkan svo að ekki komist upp um að Hannes sé að skrifa í gegnum Skapta……



  •   Goggi // 22.9 2010 kl. 00:44
    Hvað er eiginlega búið að eyða mörgum athugasemdum hér????



  •   Goggi // 22.9 2010 kl. 00:52
    Hannes=Skapti=Kalli Sveins=G2G Góð kenning?
    Það verður fróðlegt að sjá hvort að þessari athugasemd verður líka eytt!

21 September 2010

Farið í manninn en ekki boltann

DV-bloggarinn Teitur Atlason er búinn að vekja athygli á þessum skrifum mínum á bloggi sínu, og kann ég honum þakkir fyrir. Sem fyrr eru viðbrögð Hannesar og félaga upplýsandi. Reynt er að gera lítið úr persónu Teits og trúverðugleika hans, í stað þess að svara honum efnislega. Farið í manninn en ekki boltann, og það af hörku. Útúrsnúningar af nákvæmlega því tagi sem ég sagði í síðustu færslu hér að einkenndu Hannes undir pressu.

Þetta má sjá í eftirfarandi athugasemdum Hannesar við skrif Teits um meint tengsl Hannesar og Skafta:

Teitur! Þú ættir að finna þér eitthvað nytsamlegt að gera. Þú ert greinilega á barmi taugaáfalls. Þú ert ekki á réttri hillu í lífinu, þar sem þú situr við tölvuna og reynir að sjóða saman einhverjar svívirðingar, en stafsetur allt vitlaust og ruglar öllum hugtökum saman. Í textanum, eins og þú gengur frá honum, stíga saman trylltan dans nornirnar þrjár, sem Þórbergur særði fram í gagnrýni á stíl, þær lágkúra, uppskafning og ruglandi. Það eru allt of mörg óleyst verkefni í lífinu til þess, að þú sért að eyða tíma í það, sem þér er bersýnilega ofviða. Af hverju ferðu ekki til Afríku sem sjálfboðaliði í þróunarstarf? Þá væri ef til vill einhver möguleiki á, að kraftar þínir nýttust öðrum.

(Tekið úr athugasemdum héðan)

Atli! Ef þú ert að leita þér að vinnu, eins og þú segir sjálfur í kynningu á þér, þá ráðlegg ég þér að bæta stafsetningu og annan frágang á pistlum þínum. Það er allt morandi þar í málvillum og stafvillum. Nýr starfsmaður hjá fyrirtæki verður að minnsta kosti að vera sendibréfsfær. En hvað ætli kabúss sé?

(Tekið úr athugasemdum héðan)

Það er áhugavert að bera þessi skrif um meinta taugaveiklun Teits saman við það sem sagt er um hann á AMX hér. Sem og oft áður er erfitt að ímynda sér að bæði smáfuglarnir og Hannes séu án samráðs farnir að hafa svona miklar áhyggjur af andlegri velferð Teits, sem og að þetta gerist í sömu andrá og Teitur er farinn að grafast fyrir um tengslin milli Hannesar og Skafta.

Spyrjum Hannes

Stundum leitar fólk langt yfir skammt.

Hér sit ég sveittur við að grafa upp vísbendingar um að Hannes Hólmsteinn skrifi í raun pistlana sem birtir eru á Eyjunni undir nafni Skafta Harðarsonar - en liggur ekki hreinlega beinast við að spyrja manninn sjálfan út í þetta? Varla fer hann að ljúga, aðspurður út í málið. Nei, það er ekki reynsla mín af því hvað gerist þegar Hannes er spurður út í óþægilega hluti. Mín reynsla er þvert á móti sú að hann fer undan í flæmingi; reynir að leiða talið að einhverju öðru með útúrsnúningum og tilvitnunum í gríska heimspekinga. Ég minni líka á að hann hefur aldrei haft fyrir því að neita þessum 'áburði' opinberlega, ekki frekar en hann hefur haft fyrir því að neita því að hann hafi fengið borgað fyrir pistlaskrif sín í Fréttablaðið á sínum tíma (en fylgisveinar hans á netinu neita þessu oftar en ekki fyrir hans hönd, af því það hentar rökræðunum víst eitthvað illa að Hannes hafi þegið laun sem 'Baugspenni').

Þögnin og efinn eru með bestu vinum áróðursseggja. Starf þeirra er þeim mun auðveldara eftir því sem hægt er að þyrla upp, og halda í loftinu, ryki um sem flestar staðreyndir. Opin skoðanaskipti eru þeim eitur í beinum, líkt og sannast meðal annars á því hvernig brugðist var á Skaftablogginu þegar ég hóf fyrst að pota í það mein sem er líkindin milli skrifa Skafta og skrifa Hannesar (sjá fyrstu færslu mína á þessu bloggi).

Þannig að; spyrjum Hannes. Allir sem tækifæri fá til þess ættu að spyrja hann kurteisislega út í þetta einfalda atriði - „Ert þú Skafti?“ Ekki væri amalegt ef einhver fréttahaukurinn gæti jafnvel tekið þetta að sér, ef honum finnst þá Hannes ekki nægilega 'lagður í einelti' af fjölmiðlum fyrir.

20 September 2010

Af strikum

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ansi nákvæmur stílisti. Hann gerir sjaldan eða aldrei villur í rituðu máli, og er ákaflega smámunasamur hvað notkun á hinum ýmsu táknum varðar. Þetta nær meðal annars til þess að hann notar ákveðið tákn fyrir þankastrik; þetta hér: —. Þetta er sumsé ekki sama táknið og venjulegur 'mínus' (þetta hér: -), sem sumir láta sér nægja sem þankastrik, heldur sértákn. Þetta er nokkuð sem höfundar verða þá meðvitað og markvisst að notast við. Ekki einu sinni ritillinn Microsoft Word breytir - sjálfkrafa í — (allavega ekki eins og það kemur stillt beint 'úr kassanum'). Nei, athuganir leiða í ljós að Word breytir - í þriðja táknið, –, sem er þarna mitt á milli hvað lengd varðar.


Það má sjá þetta langa þankastrikstákn, —, í þeim pistlum sem Hannes skrifar undir sínu eigin nafni á Pressunni, til að mynda hér („.. svíkja sig, — sama fólkið ...“), hér („Hvað koma hugleiðingar — eða öllu heldur fúkyrðaflaumur — Torfa Stefánssonar  ...“), og hér  („Stalín var hér — svo sannarlega“).


Miðlengdartáknið áðurnefnda, –, notar Hannes hins vegar iðulega fyrir tímabil, líkt og sjá má til að mynda hér („ ... að árin 1991–2004 ...“), hér  („... dagana 1.–4. júlí ...“) og hér („... á Norðurlöndum árin 1995–2004.“).


Venjulegan 'mínus', -, notar Hannes síðan þegar orð eru brotin upp. Dæmi um það má sjá hér („Rannsóknir Prescotts styðja Laffer-bogann fræga ....“), hér („... tölum um Gini-stuðla ...“) og hér („... að Hong Kong-búar hafa ...“).


Hvaða notkunargildi hafa þessar upplýsingar? Jú, þetta þýðir auðvitað að þetta eru heldur augljós stíleinkenni hjá Hannesi. Sá sem ávallt notast við — undir þankastrik, – undir tímabil og  - til að brjóta upp orð, og ruglar þessu þrennu aldrei saman, er með nákvæmlega þessi stíleinkenni, sem verða að teljast nokkuð persónuleg fyrir Hannes. 


Bloggfærslur Skafta Harðarsonar bera þessi stíleinkenni. Dæmi sem sýna fram á þetta er álíka auðvelt að finna og í pistlum Hannesar:


Þankastrik: Hér („... ritgerð um fátækt — sem samin hafði verið undir umsjón hans og Harpa Njáls var skrifuð fyrir — var afhend ...“), hér  („... Hagar — sem eru í raun í eigu bankanna og þar með þjóðarinnar — fá að ...“), og hér  („... þegja — að undanteknum Gunnari Helga  ...“).


Tímabil: Hér  („... var forsætisráðherra 1991–2004 var góðærið ...“), hér  („... formaður samkeppnisráðs 2005–2009 ...“), og hér  („... um Ísland árin 2002–2005 hafði Davíð ...“).


Uppbrot orða: Hér  („... vilji borga Icesave-reikningana.“), hér („... reka haturs- og áróðursherferð ...“), og hér („... blekkt hluthafa í FL-Group.“).


Lausleg athugun mín á pistlum aftur í tímann leiðir í ljós að notkun á þessum þremur táknum (—, –, og -) er alltaf í fullkomnu samræmi hjá Hannesi og Skafta. Þetta geta lesendur þó skoðað sjálfir með því að leita með hjálp vafrans (CTRL+F) eftir þessum táknum í pistlum þeirra til að gæta að því hvernig þau eru notuð. Lesendur geta einnig spreytt sig á því verkefni að finna einhverja aðra en þessa tvo sem skrifa pistla á netinu sem bera nákvæmlega þessi stíleinkenni; það hefur mér sjálfum allavega ekki tekist að gera.


Þó þetta sanni auðvitað strangt til tekið ekkert, þá tel ég þetta atriði renna enn frekari stoðum undir þá kenningu að Hannes Hólmsteinn skrifi í raun pistlana sem birtir eru undir nafni Skafta á Eyjunni. Þær stoðir eru að mínu mati orðnar ansi traustar, og verða án efa enn traustari með frekari textarannsóknum.

19 September 2010

Að kasta fyrir ljónin

Þemað er: Jóhanna Sigurðardóttir er að kasta Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir fyrir ljónin, líkt og rómverskir keisarar forðum.

Eftir því sem ég fæ best séð birtist þetta þema fyrst á AMX hér, síðan hjá Skafta hér ("Þetta hét að fornu að kasta saklausu fólki fyrir ljónin, og stunduðu rómverskir keisarar það."), og loks gerði Hannes heilan pistil úr þessu hér. Hannes stundar almennt töluverðan copy/paste áróður sem hann hamrar á aftur og aftur. Þetta virðist vera eitt það nýjasta í þann sarp, og mun það án efa birtast aftur undir hinum ýmsu nöfnum, líkt og aragrúi annars áróðurs af sama toga.

18 September 2010

Lítil saga

Ég kalla mig Möl, og annað þarf ekki að koma fram hér um mína persónu, enda er hún aukaatriði.

Fyrir skömmu fór ég að gera athugasemdir á bloggi Skafta Harðarsonar, fyrst og fremst sjálfum mér til skemmtunar, þar sem bloggfærslur Skafta eru oft á tíðum það stórfurðulegar að erfitt er að láta hjá líða að gera athugasemdir við þær, sem æfingu í einfaldri rökfræði.

Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara, og gamanið fór heldur að kárna þegar ég birti athugasemd við eina af bloggfærslum Skafta þar sem ég rakti það að töluverð líkindi eru milli téðra skrifa Skafta og eldri skrifum Hannesar Hólmsteins á Pressubloggi hans. Morguninn eftir að ég birti þennan samanburð var athugasemdin nefnilega horfin. Þetta er nokkuð sem ég hafði aldrei séð áður á bloggi Skafta; fram að þessu virtist hver sem er geta sagt hvað sem er í athugasemdum við þetta blogg án þess að lenda í því að ummælunum væri eytt. Þegar ég reyndi síðan að endurbirta þessa samanburðarrannókn mína gerðist ekkert. Þegar ég prófaði proxy gekk hins vegar greiðlega að endurbirta skrifin, þannig að ég gat ekki ályktað annað en að IP-tala mín hefði verið blokkuð. Sumsé, fyrir það eitt að bera saman skrif Skafta og skrif Hannesar var athugasemd minni eytt og IP-talan blokkuð. Fyrir ótæknivædda nægir að vita að þetta þýðir að blogghöfundur var greinilega farinn að reyna að meina mér frá því að skrifa frekari athugasemdir á bloggið.

Upphófst upp úr þessu stapp þar sem athugasemdum mínum var eytt markvisst, en annarra ekki - nema í einu tilfelli tók ég eftir því að athugasemd þar sem einfaldlega var spurt hvort Skafti eða Hannes hafi skrifað einhvern pistilinn var látin hverfa (sumsé; ég sá athugasemdina og svo síðar að hún var horfin). Núna síðast er búið að eyða öllum athugasemdum mínum aftur í tímann markvisst. Þetta má sjá af því að aðrar athugasemdir þar sem verið var að svara mér standa enn eftir - í raun líta umræðurnar við gamlar bloggfærslur Skafta eftir þetta heldur einkennilega út á köflum, þar sem það vantar einn þátttakanda í þær.

Þessar eyðingar á athugasemdum fara fram í kyrrþey og án útskýringa, og virðast beinast gegn mér einum. Ég á mjög erfitt með að álykta annað en að ég hafi hitt á mjög viðkvæma taug með því að hefja samanburð á skrifum Skafta og skrifum Hannesar, og eins og ég geri alltaf þegar ég finn slíka taug, þá ætla ég að halda áfram að pota í hana. Þar sem Skafti (?) er núna greinilega farinn að meina mér mjög markvisst frá því að koma þessum upplýsingum á framfæri á bloggi hans var ekki um annað að ræða en að stofna blogg sjálfur, til að halda 'málstaðnum' á lofti. Lesendur geta hæglega búist við því að hér birtist frekari samanburðarrannsóknir, og jafnvel eitthvað allt annað ef þannig liggur á mér.