21 September 2010

Spyrjum Hannes

Stundum leitar fólk langt yfir skammt.

Hér sit ég sveittur við að grafa upp vísbendingar um að Hannes Hólmsteinn skrifi í raun pistlana sem birtir eru á Eyjunni undir nafni Skafta Harðarsonar - en liggur ekki hreinlega beinast við að spyrja manninn sjálfan út í þetta? Varla fer hann að ljúga, aðspurður út í málið. Nei, það er ekki reynsla mín af því hvað gerist þegar Hannes er spurður út í óþægilega hluti. Mín reynsla er þvert á móti sú að hann fer undan í flæmingi; reynir að leiða talið að einhverju öðru með útúrsnúningum og tilvitnunum í gríska heimspekinga. Ég minni líka á að hann hefur aldrei haft fyrir því að neita þessum 'áburði' opinberlega, ekki frekar en hann hefur haft fyrir því að neita því að hann hafi fengið borgað fyrir pistlaskrif sín í Fréttablaðið á sínum tíma (en fylgisveinar hans á netinu neita þessu oftar en ekki fyrir hans hönd, af því það hentar rökræðunum víst eitthvað illa að Hannes hafi þegið laun sem 'Baugspenni').

Þögnin og efinn eru með bestu vinum áróðursseggja. Starf þeirra er þeim mun auðveldara eftir því sem hægt er að þyrla upp, og halda í loftinu, ryki um sem flestar staðreyndir. Opin skoðanaskipti eru þeim eitur í beinum, líkt og sannast meðal annars á því hvernig brugðist var á Skaftablogginu þegar ég hóf fyrst að pota í það mein sem er líkindin milli skrifa Skafta og skrifa Hannesar (sjá fyrstu færslu mína á þessu bloggi).

Þannig að; spyrjum Hannes. Allir sem tækifæri fá til þess ættu að spyrja hann kurteisislega út í þetta einfalda atriði - „Ert þú Skafti?“ Ekki væri amalegt ef einhver fréttahaukurinn gæti jafnvel tekið þetta að sér, ef honum finnst þá Hannes ekki nægilega 'lagður í einelti' af fjölmiðlum fyrir.

No comments:

Post a Comment