16 March 2013

Nýr Hannes?

Birgir Þór Runólfsson hefur tiltölulega nýlega bæst í hóp Eyjubloggara. Hann er hagfræðingur og greinilega hugmyndafræðilega á svipaðri línu og Hannes Hólmsteinn, enda starfa þeir saman í Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt. Hugðarefnin eru líka oftar en ekki um margt svipuð; til dæmis virðast þeir báðir hafa sérlegan áhuga á að hrekja málflutning Stefáns Ólafssonar æ ofan í æ.

Birgir Þór er hins vegar, væntanlega sökum menntunar sinnar og bakgrunns, mun færari en Hannes í að færa hagræn og töluleg rök fyrir máli sínu, og þau virka oftar en ekki frekar sannfærandi, hið minnsta málefnaleg og vel ígrunduð. Þess vegna kom mér töluvert á óvart að sjá allt í einu þessa færslu, sem er lítið annað en endurtekning á gamalkunnugri áróðurslínu Hannesar Hólmsteins um hérlendan venjulegan kapítalisma 1991-2004 en klíkukapítalisma upp úr því. Birgir Þór bætir þar engu við; einu rök beggja fyrir því að 2004 hafi markað einhver vatnaskil að þessu leyti eru tölur um erlendar skuldir.

Vegna þessarar færslu datt mér í hug að skoða strikanotkun Birgis Þórs í ljósi eldri samanburðarrannsókna minna. Skemmst er frá því að segja að hann virðist ekki notast við þankastrikið —, en hann notar hins vegar miðlengdarstrikið – fyrir ártölubil (t.d. 1991–2004) og stutta strikið - til að skipta upp orðum, rétt eins og Hannes Hólmsteinn.

Til frekari samanburðar þá notar til að mynda áðurnefndur Stefán Ólafsson miðlengdarstrikið – sem eins konar þankastrik, en stutta strikið - bæði til að skipta upp orðum og fyrir ártölubil.

Ég ætla að láta lesendum það algjörlega eftir að draga ályktanir af þessum staðreyndum.