20 September 2010

Af strikum

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er ansi nákvæmur stílisti. Hann gerir sjaldan eða aldrei villur í rituðu máli, og er ákaflega smámunasamur hvað notkun á hinum ýmsu táknum varðar. Þetta nær meðal annars til þess að hann notar ákveðið tákn fyrir þankastrik; þetta hér: —. Þetta er sumsé ekki sama táknið og venjulegur 'mínus' (þetta hér: -), sem sumir láta sér nægja sem þankastrik, heldur sértákn. Þetta er nokkuð sem höfundar verða þá meðvitað og markvisst að notast við. Ekki einu sinni ritillinn Microsoft Word breytir - sjálfkrafa í — (allavega ekki eins og það kemur stillt beint 'úr kassanum'). Nei, athuganir leiða í ljós að Word breytir - í þriðja táknið, –, sem er þarna mitt á milli hvað lengd varðar.


Það má sjá þetta langa þankastrikstákn, —, í þeim pistlum sem Hannes skrifar undir sínu eigin nafni á Pressunni, til að mynda hér („.. svíkja sig, — sama fólkið ...“), hér („Hvað koma hugleiðingar — eða öllu heldur fúkyrðaflaumur — Torfa Stefánssonar  ...“), og hér  („Stalín var hér — svo sannarlega“).


Miðlengdartáknið áðurnefnda, –, notar Hannes hins vegar iðulega fyrir tímabil, líkt og sjá má til að mynda hér („ ... að árin 1991–2004 ...“), hér  („... dagana 1.–4. júlí ...“) og hér („... á Norðurlöndum árin 1995–2004.“).


Venjulegan 'mínus', -, notar Hannes síðan þegar orð eru brotin upp. Dæmi um það má sjá hér („Rannsóknir Prescotts styðja Laffer-bogann fræga ....“), hér („... tölum um Gini-stuðla ...“) og hér („... að Hong Kong-búar hafa ...“).


Hvaða notkunargildi hafa þessar upplýsingar? Jú, þetta þýðir auðvitað að þetta eru heldur augljós stíleinkenni hjá Hannesi. Sá sem ávallt notast við — undir þankastrik, – undir tímabil og  - til að brjóta upp orð, og ruglar þessu þrennu aldrei saman, er með nákvæmlega þessi stíleinkenni, sem verða að teljast nokkuð persónuleg fyrir Hannes. 


Bloggfærslur Skafta Harðarsonar bera þessi stíleinkenni. Dæmi sem sýna fram á þetta er álíka auðvelt að finna og í pistlum Hannesar:


Þankastrik: Hér („... ritgerð um fátækt — sem samin hafði verið undir umsjón hans og Harpa Njáls var skrifuð fyrir — var afhend ...“), hér  („... Hagar — sem eru í raun í eigu bankanna og þar með þjóðarinnar — fá að ...“), og hér  („... þegja — að undanteknum Gunnari Helga  ...“).


Tímabil: Hér  („... var forsætisráðherra 1991–2004 var góðærið ...“), hér  („... formaður samkeppnisráðs 2005–2009 ...“), og hér  („... um Ísland árin 2002–2005 hafði Davíð ...“).


Uppbrot orða: Hér  („... vilji borga Icesave-reikningana.“), hér („... reka haturs- og áróðursherferð ...“), og hér („... blekkt hluthafa í FL-Group.“).


Lausleg athugun mín á pistlum aftur í tímann leiðir í ljós að notkun á þessum þremur táknum (—, –, og -) er alltaf í fullkomnu samræmi hjá Hannesi og Skafta. Þetta geta lesendur þó skoðað sjálfir með því að leita með hjálp vafrans (CTRL+F) eftir þessum táknum í pistlum þeirra til að gæta að því hvernig þau eru notuð. Lesendur geta einnig spreytt sig á því verkefni að finna einhverja aðra en þessa tvo sem skrifa pistla á netinu sem bera nákvæmlega þessi stíleinkenni; það hefur mér sjálfum allavega ekki tekist að gera.


Þó þetta sanni auðvitað strangt til tekið ekkert, þá tel ég þetta atriði renna enn frekari stoðum undir þá kenningu að Hannes Hólmsteinn skrifi í raun pistlana sem birtir eru undir nafni Skafta á Eyjunni. Þær stoðir eru að mínu mati orðnar ansi traustar, og verða án efa enn traustari með frekari textarannsóknum.

3 comments:

  1. Sumir pistlarnir á AMX (en þar hafa einmitt margir velt fyrir sér hvort Hannes haldi í einhverjum tilfellum á penna) bera líka þessi stíleinkenni.

    Þankastrik má sjá til að mynda hér („... Jóni Ásgeiri — manninum sem tók ...“), hér („... einn bankann — Glitni/Íslandsbanka — og tæmdi ...“) og hér („... Silfur Egils, — you know ...“).

    Það er kannski ekki skrýtið að þessir pistlar tengjast allir sérlegum hugðarefnum Hannesar.

    Meira síðar um þetta ef ég hef tíma og nennu - en auðvitað eru væntanlega margir höfundar að fuglahvíslinu á AMX, og því ekki endilega hlaupið að því að greina þau skrif.

    ReplyDelete
  2. Ótrúlega vel athugað. Svo er bara að sjá hvort Skafti sé a.k.a. Hannes.

    ReplyDelete
  3. "Hann gerir sjaldan eða aldrei villur í rituðu máli,"
    Samt skrifar hann Oddssson í afmælispistli um DO í síðustu viku.

    ReplyDelete