16 March 2013

Nýr Hannes?

Birgir Þór Runólfsson hefur tiltölulega nýlega bæst í hóp Eyjubloggara. Hann er hagfræðingur og greinilega hugmyndafræðilega á svipaðri línu og Hannes Hólmsteinn, enda starfa þeir saman í Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt. Hugðarefnin eru líka oftar en ekki um margt svipuð; til dæmis virðast þeir báðir hafa sérlegan áhuga á að hrekja málflutning Stefáns Ólafssonar æ ofan í æ.

Birgir Þór er hins vegar, væntanlega sökum menntunar sinnar og bakgrunns, mun færari en Hannes í að færa hagræn og töluleg rök fyrir máli sínu, og þau virka oftar en ekki frekar sannfærandi, hið minnsta málefnaleg og vel ígrunduð. Þess vegna kom mér töluvert á óvart að sjá allt í einu þessa færslu, sem er lítið annað en endurtekning á gamalkunnugri áróðurslínu Hannesar Hólmsteins um hérlendan venjulegan kapítalisma 1991-2004 en klíkukapítalisma upp úr því. Birgir Þór bætir þar engu við; einu rök beggja fyrir því að 2004 hafi markað einhver vatnaskil að þessu leyti eru tölur um erlendar skuldir.

Vegna þessarar færslu datt mér í hug að skoða strikanotkun Birgis Þórs í ljósi eldri samanburðarrannsókna minna. Skemmst er frá því að segja að hann virðist ekki notast við þankastrikið —, en hann notar hins vegar miðlengdarstrikið – fyrir ártölubil (t.d. 1991–2004) og stutta strikið - til að skipta upp orðum, rétt eins og Hannes Hólmsteinn.

Til frekari samanburðar þá notar til að mynda áðurnefndur Stefán Ólafsson miðlengdarstrikið – sem eins konar þankastrik, en stutta strikið - bæði til að skipta upp orðum og fyrir ártölubil.

Ég ætla að láta lesendum það algjörlega eftir að draga ályktanir af þessum staðreyndum.

21 October 2010

Afneitanir sem ekki eru

Hannes Hólmsteinn og Skafti Harðarson hafa nú báðir svarað opinberlega þeirri afdráttarlausu ásökun Egils Helgasonar, að Hannes skrifi fyrir Skafta og smáfuglana á AMX. Málfærslur þeirra er svipaðar, enda viðurkenna þeir allavega það að þeir hafi ákveðið samráð í skrifum sínum. Hins vegar vekur það athygli mína að hvorugur þeirra segir afdráttarlaust að Hannes sé ekki beinlínis höfundurinn að neinu því sem birst hefur á bloggi Skafta eða á AMX. Einungis eru færð óbein rök fyrir því að svo sé ekki. Myndu menn sem verða fyrir svona harðri ásökun algjörlega að ósekju ekki afneita henni með afdráttarlausari hætti en þetta? Hér tel ég mig finna lykt af úthugsuðum mælskubrögðum.

20 October 2010

Skafti orðinn sjálfstæður?

Sú ánægjulega þróun virðist hafa orðið að Skafti er farinn að skrifa sjálfur á bloggið sitt. Þetta sést glögglega á efnistökunum í síðustu pistlum hans, sem eru fjölbreyttari og merkilegri en áður. Einnig er það sterk vísbending að Skafti er farinn að svara þeim sem rita athugasemdir og skrifa greinilega út frá sínu eigin brjósti, samanber þegar hann tilkynnir framboð sitt til stjórnlagaþings. Þetta tel ég jákvæða þróun sem ég vona að haldi áfram, því þar sem þetta blogg er stofnað í kringum þá kenningu að Hannes sé að skrifa fyrir Skafta, þá verður mín ekki þörf lengur ef þetta er ekki lengur tilfellið!

P.S. Ég sé að það er vísað á mig af bloggi Egils Helgasonar í dag. Þar sem það er djúpt á einni merkustu færslunni hér ætla ég bara að hlekkja á hana handa þeim sem hingað rata inn í dag.

10 October 2010

Af þagnameisturum

Þemað er: Þorvaldur Gylfason er þagnameistari (og nú síðast Ólafur Ragnar Grímsson líka).


Þorvaldur Gylfason kallaði Styrmi Gunnarsson 'þagnameistara' í pistli nokkrum í Fréttablaðinu fyrir tæpu ári. Þetta virðist hafa farið eitthvað illa í Hannes Hólmstein, sem kaus að snúa þessu frekar upp á Þorvald sjálfan; að vísu ekki með berum orðum, en kjarninn er greinilega þarna ('Þorvaldur hefur ekki í eitt einasta skipti — í mörg hundruð greinum sínum — gagnrýnt þá spillingu og þá fjárglæfra, sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnandi Fréttablaðsins, hefur reynst sekur um og upplýst verið um.').


Smáfuglarnir á AMX hafa síðan haldið þessu þema á lofti með því að beinlínis kalla Þorvald þagnameistara, eins og sjá má hér, hér, hér, og hér. Skafti Harðarson hefur einnig tekið þátt í þessu; það má sjá hér, hér og hér.


Athyglisvert er að í öðrum pistli Skafta þarna vísar hann í pistil Smáfuglanna með orðalaginu 'Þar er bent á að Þorvaldur Gylfason sem kallaði annan mann þagnameistara honum til háðungar hefur þagað í fimm ár um vammir og skammir Baugsfeðga.Þetta er auðvitað athyglisvert í ljósi þess að í fyrsta þagnameistarapistli Skafta, sem er skrifaður um mánuði áður, bendir Skafti einmitt á þetta sjálfur. Orðalagið er því undarlegt; eðlilegra væri að Skafti segði sem svo að þarna væru Smáfuglarnir að taka undir með honum, í stað þess að láta sem þetta séu einhverjar nýjar upplýsingar (eins og orðalagið bendir til, að mínu mati). Þetta er þó lítið atriði, en engu að síður vert að minnast á.


Nú má vera að eftirfarandi teljist ómálefnalegt, en í öllu þessu tali um þagnameistara er erfitt annað en að minnast þess að Hannes Hólmsteinn hefur sjálfur lýst því hvernig hann ákvað að gerast þagnameistari þegar kemur að Davíð Oddssyni:
Mér þótti þetta miður. Ég sagði Gunnlaugi Sævari strax frá þessu samtali, og hann ráðlagði mér að skýra afstöðu mína betur út fyrir Davíð. Ég settist niður og skrifaði Davíð stutt bréf, þar sem ég gerði þetta, en kvaðst skilja sjónarmið hans mjög vel. Þegar öll spjót stæðu á honum (eins og vissulega var í þessu Kínamáli), ættu vinir hans auðvitað ekki að gera neitt það, sem skilja mætti opinberlega sem árás á hann. Þeir ættu frekar að láta gagnrýni sína í ljós við hann beint og milliliðalaust. Sá er vinur, sem til vamms segir, en máli skiptir, hvar það er gert og undir hvaða formerkjum.
Sumsé; þessi stjórnmálaprófessor hefur viðurkennt opinberlega að hann hafi ákveðið árið 2002 að láta aldrei frá sér nokkuð sem 'skilja mætti opinberlega sem árás á Davíð', heldur frekar tala við hann sjálfan í kyrrþey (en miðað við hvernig þessu tiltekna máli lyktaði hvarflar nú að manni að þessi leið hafi frekar verið líkleg til að enda með því að Davíð sannfærði Hannes, en öfugt). Þessu virðist Hannes líka hafa fylgt stíft eftir, og gott betur; prófessorinn hefur ekki einungis látið hjá líða að gagnrýna Davíð eða nokkuð sem honum tengist, heldur hefur hann varið hann af fullri hörku í opinberri umræðu þegar svo ber undir, og ráðist gegn andstæðingum hans. Vináttan við Davíð gengur fyrir, eins Hannes segir sjálfur; hún er greinilega æðri til að mynda öllum akademískum skyldum. Það sem er þó kannski alvarlegast er að Hannes viðurkennir ekki opinberlega að hann hafi tekið þessa ákvörðun fyrr en hátt í átta árum síðar, þannig að í millitíðinni var hulin fyrir almenningi sú staðreynd að þessi fræðimaður hafi meðvitað og markvisst beitt þessari reglu í málflutningi sínum.


Að lokum má nefna að það er viss kaldhæðni fólgin í því að þessi pistill minn komi beint á eftir pistli þar sem fjallað er um þögn prófessorsins í öðru máli, en það er tilviljun ein; ástæðan fyrir þessum pistli er nýjasti pistill Skafta, þar sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur bæst í hóp þagnameistara.

Þögn sama og samþykki?

Nú hafa ásakanir þess efnis að Hannes Hólmsteinn skrifi pistla Skafta Harðarsonar að miklu eða jafnvel öllu leyti legið í loftinu um hríð. Nú síðast hélt hinn víðlesni bloggari Egill Helgason þessu fram fullum fetum. Það er nánast ómögulegt að þetta hafi farið framhjá þeim Hannesi og Skafta. Það er hið minnsta ljóst að Hannes veit vel af þessum ásökunum, samanber það að hann hefur tjáð sig um þær á bloggi Teits Atlasonar (án þess að svara þeim í raun). Hannes hefur jafnframt tjáð sig með skírum og beinum hætti um ásökun af sama toga áður; það má sjá hér ('Um amx.is get ég sagt það, að margt það, sem þar birtist, er eins og talað út úr mínu hjarta, en því miður á ég ekki heiðurinn af því að hafa skrifað það. Ég er líka hissa á því, ef einhver telur, að mér nægi ekki að blogga daglega á Pressunni.').

Af þessum sökum vekur furðu að Hannes skuli sitja þegjandi undir svo alvarlegri ásökun nú. Næg hefur hann færin til að tjá sig; hann gæti jafnvel skrifað athugasemd við blogg Skafta til að árétta þetta. Skafti gæti auðvitað líka hæglega áréttað þetta ef hann vildi, en hann virðist reyndar aldrei tjá sig um sína hagi á bloggi sínu, hverju svo sem það sætir nú!

05 October 2010

Griðrof

Þemað er: Núverandi ríkisstjórn rauf 'grið' sem hefð hefur verið fyrir milli flokkanna með því að setja Davíð Oddsson af í Seðlabankanum, sem og með því að senda Geir Haarde fyrir landsdóm - og hún sýndi jafnframt valdníðslu með þessum gjörðum.

Þetta má sjá hjá Hannesi hér, hjá AMX hér, og hjá Skafta hér.

Að vísu er ölítill blæbrigðamunur á því hvernig hlutirnir eru orðaðir milli 'höfunda', en meginþemað er þó skýrt, og greinilega sameiginlegt.

Andlegt ofbeldi og lygar

Á bloggi Skafta Harðarsonar hangir maður sem kallar sig Guðmund 2. Gunnarsson. Hann hef ég nokkrar rimmur háð við í athugasemdum við bloggfærslur Skafta, en því miður eru þær allar horfnar núna - eða það er að segja mín hlið þar er horfin. Eftir standa heilmiklar einræður Guðmundar annars við sjálfan sig. Þetta angrar hann samt bersýnilega ekki neitt, ekki frekar en það almennt að mér hafi verið hent þarna út; hann styður það að mér sé haldið úti afdráttarlaust. Hans helsta hlutverk þarna virðist vera að herja á alla þá sem eru að minnsta leyti ósammála Skafta með andlegu ofbeldi og kúgunartilburðum. Ofan á þetta bætast líka oftar en ekki lygar og óheiðarleiki, eins og þegar hann fullyrðir að ég sé 'fjölnikkungur', án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því - sú lygi á víst að réttlæta það að mér sé hent út af bloggi Skafta, enda hefur Guðmundur annar fáar málefnalegar ástæður fyrir þeirri kröfu. Hans heimsmynd er svört og hvít, og þeir sem eru svartir í hans augum eru heimskir ræflar, og réttlausir með öllu; innlegg þeirra til umræðunnar ekki svaraverð með öðru en skætingi og kúgun. Hans vera þarna á Skaftablogginu á stóran þátt í því að ég hef svona mikinn áhuga á því að rannsaka bloggið og gera athugasemdir við það.

Tilefni þessarar færslu minnar voru þessi nýjustu skrif Guðmundar annars, sem ég held að dæmi sig í rauninni algjörlega sjálf. Dagskipanin er hræsni; fyrst aðrir bloggarar loka á ákveðna aðila sem þeim líkar ekki við, þá er réttlætanlegt í augum Guðmundar annars að Skafti geri það líka. Guðmundur annar hikar ekki við að styðja þá sem honum líkar vel við heilshugar í því sem hann úthúðar þeim sem honum líkar illa við fyrir að stunda. Eini siðferðilegi viðmiðunarpunktur hans er hver á í hlut hverju sinni; almenn prinsipp virðast hann engu máli skipta. Samt sem áður er einn uppáhaldsfrasi Guðmundar víst Svo skal böl bæta að benda á annað verra - sem er þá hræsni ofan á hræsnina. Geri aðrir betur.

Eldri skrif um kúgunartilburðina sem uppi eru hafðir á bloggi Skafta: