18 September 2010

Lítil saga

Ég kalla mig Möl, og annað þarf ekki að koma fram hér um mína persónu, enda er hún aukaatriði.

Fyrir skömmu fór ég að gera athugasemdir á bloggi Skafta Harðarsonar, fyrst og fremst sjálfum mér til skemmtunar, þar sem bloggfærslur Skafta eru oft á tíðum það stórfurðulegar að erfitt er að láta hjá líða að gera athugasemdir við þær, sem æfingu í einfaldri rökfræði.

Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara, og gamanið fór heldur að kárna þegar ég birti athugasemd við eina af bloggfærslum Skafta þar sem ég rakti það að töluverð líkindi eru milli téðra skrifa Skafta og eldri skrifum Hannesar Hólmsteins á Pressubloggi hans. Morguninn eftir að ég birti þennan samanburð var athugasemdin nefnilega horfin. Þetta er nokkuð sem ég hafði aldrei séð áður á bloggi Skafta; fram að þessu virtist hver sem er geta sagt hvað sem er í athugasemdum við þetta blogg án þess að lenda í því að ummælunum væri eytt. Þegar ég reyndi síðan að endurbirta þessa samanburðarrannókn mína gerðist ekkert. Þegar ég prófaði proxy gekk hins vegar greiðlega að endurbirta skrifin, þannig að ég gat ekki ályktað annað en að IP-tala mín hefði verið blokkuð. Sumsé, fyrir það eitt að bera saman skrif Skafta og skrif Hannesar var athugasemd minni eytt og IP-talan blokkuð. Fyrir ótæknivædda nægir að vita að þetta þýðir að blogghöfundur var greinilega farinn að reyna að meina mér frá því að skrifa frekari athugasemdir á bloggið.

Upphófst upp úr þessu stapp þar sem athugasemdum mínum var eytt markvisst, en annarra ekki - nema í einu tilfelli tók ég eftir því að athugasemd þar sem einfaldlega var spurt hvort Skafti eða Hannes hafi skrifað einhvern pistilinn var látin hverfa (sumsé; ég sá athugasemdina og svo síðar að hún var horfin). Núna síðast er búið að eyða öllum athugasemdum mínum aftur í tímann markvisst. Þetta má sjá af því að aðrar athugasemdir þar sem verið var að svara mér standa enn eftir - í raun líta umræðurnar við gamlar bloggfærslur Skafta eftir þetta heldur einkennilega út á köflum, þar sem það vantar einn þátttakanda í þær.

Þessar eyðingar á athugasemdum fara fram í kyrrþey og án útskýringa, og virðast beinast gegn mér einum. Ég á mjög erfitt með að álykta annað en að ég hafi hitt á mjög viðkvæma taug með því að hefja samanburð á skrifum Skafta og skrifum Hannesar, og eins og ég geri alltaf þegar ég finn slíka taug, þá ætla ég að halda áfram að pota í hana. Þar sem Skafti (?) er núna greinilega farinn að meina mér mjög markvisst frá því að koma þessum upplýsingum á framfæri á bloggi hans var ekki um annað að ræða en að stofna blogg sjálfur, til að halda 'málstaðnum' á lofti. Lesendur geta hæglega búist við því að hér birtist frekari samanburðarrannsóknir, og jafnvel eitthvað allt annað ef þannig liggur á mér.

2 comments:

  1. Best að birta hér athugasemdina sem ég setti inn hjá Skafta; þá sem kom þessu balli öllu af stað (ég var það heppinn að ég átti til afrit af henni sem ég gat endurbirt um leið og henni var eytt í fyrsta skiptið, og get síðan endurbirt eftir þörfum). Munið - þessu var eytt umhendis og ég hlaut IP-bann fyrir vikið.

    ---

    Smá samanburðarrannsókn.

    Skafti: „Margt var gott um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, enda var miklu kostað til hennar. Hún er stórfróðleg …“
    Hannes: „Margt er fróðlegt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.“

    Skafti: „… fámenn klíka peningamanna undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sölsaði undir sig bankana og tæmdi þá síðan …“
    Hannes: „… fámennur hópur ævintýramanna náðu tökum á íslensku bönkunum um og eftir 2004 og soguðu þaðan út fé í misjafnlega skynsamlegar fjárfestingar. Þessi hópur var undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi. Hann var höfuðpaurinn.“

    Skafti: „En stundum lögðust nefndarmenn í furðuleg smáatriðafræði og það er þeim til mikillar minnkunar að þeir skyldu láta undan þrýstingnum utan úr bæ að reyna að hengja saklausa menn með hinum seku. Ég á auðvitað við aðfinnslur þeirra við rekstur Seðlabankans.“
    Hannes: „Skýrsluhöfundar lögðust hins vegar í undarlega smásjárskoðun á embættisfærslum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra, enda dundu á þeim áskoranir leynt og ljóst um að finna eitthvað misjafnt um hann.“

    Skafti: „Annað var að Seðlabankinn hefði ekki stöðvað Icesave-starfsemi Landsbankans.“
    Hannes: „Önnur athugasemd þeirra við athafnir Davíðs og félaga hans í Seðlabankanum er beinlínis röng. Þeir telja, að Seðlabankinn hefði átt að stöðva Landsbankann, þegar hann færði út kvíarnar með stofnun Icesave-reikninganna.“

    Skafti: „En eins og Davíð Oddsson benti á í athugasemdum sínum (sem nefndin lofaði að birta með skýrslu sinni, en gerði ekki, heldur setti á netið) er alveg skýrt að Seðlabankinn hafði ekki lagaheimild til þess.“
    Hannes: „Seðlabankinn hafði enga lagaheimild til þess, eins og er rækilega útskýrt í svari Davíðs Oddssonar, sem aðgengilegt er á Netinu (en er af einhverjum ástæðum ekki prentað með sjálfri skýrslu Rannsóknarnefndarinnar).“

    Skafti: „Hitt var að bankinn hefði ekki gætt þess að fylla út öll eyðublöð og kalla alla til skrafs og ráðagerða sem málið varðaði þegar bankinn fyrir hönd ríkisins gerði kauptilboð í Glitni um helgi. Þessi athugasemd er hlægileg.“
    Hannes: „Hin athugasemd þeirra er svo smávægileg, að ekki var orð á gerandi. Hún er, að ekki hafi verið fyllt út rétt eyðublöð, þegar ríkið gerði með milligöngu Seðlabankans kauptilboð í flest hlutabréf Glitnis í upphafi bankahrunsins.“

    Skafti: „Um allan heim voru seðlabankar á þessum tíma að gera tilboð í eignir og greiða fyrir viðskiptabönkum í því skyni að afstýra bankahruni. Þeir voru ekki að fylla út öll eyðublöð og kalla fjölda manns til skrafs og ráðagerða. Þeir urðu að hafa skjótar hendur.“
    Hannes: „Á sama tíma voru fjármálaráðherra og seðlabankastjóri Bandaríkjanna að ausa fé í bankana þar vestra. Þá skipti máli að taka ákvarðanir hratt og örugglega. Halda einhverjir, að þar hafi verið aðalatriðið, hvaða eyðublöð voru fyllt út?“

    Í raun á ég eiginlega bágt með að trúa að Hannes hafi ekki skrifað þennan pistil sem hér er birtur í nafni Skafta. Það er líka mjög ljóst á stíl hans almennt, samkvæmt því sem hann birtir undir sínu eigin nafni, að hann er gjarn á að nota sama orðalagið um sömu hlutina aftur og aftur, og hamra á frösum og klisjum. „Tveir ungir og hrokafullir hagfræðingar …“ um þá Gauta B. og Jón Steinsson er eitt dæmi af mýmörgum; ég held hann skrifi aldrei um þá án þess að nota nákvæmlega þetta orðalag.

    Ef svo er hins vegar ekki er spurning hvort Hannes gæti kært Skafta fyrir ritstuld. Hann ætti nú þó að geta svarað því sjálfur einna manna best, þar sem hann þekkir orðið væntanlega höfundarréttarlög ágætlega.

    ReplyDelete
  2. Í þessum skrifuðu orðum var verið að eyða svohljóðandi athugasemd minni við nýjustu færslu Skafta:

    "Af mjög svo gefnu tilefni.

    http://molur.blogspot.com/2010/09/litil-saga.html

    Þessari athugasemd minni verður væntanlega eytt þegjandi og útskýringalaust, en ég mun þá setja hana inn aftur."

    ReplyDelete