10 October 2010

Af þagnameisturum

Þemað er: Þorvaldur Gylfason er þagnameistari (og nú síðast Ólafur Ragnar Grímsson líka).


Þorvaldur Gylfason kallaði Styrmi Gunnarsson 'þagnameistara' í pistli nokkrum í Fréttablaðinu fyrir tæpu ári. Þetta virðist hafa farið eitthvað illa í Hannes Hólmstein, sem kaus að snúa þessu frekar upp á Þorvald sjálfan; að vísu ekki með berum orðum, en kjarninn er greinilega þarna ('Þorvaldur hefur ekki í eitt einasta skipti — í mörg hundruð greinum sínum — gagnrýnt þá spillingu og þá fjárglæfra, sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnandi Fréttablaðsins, hefur reynst sekur um og upplýst verið um.').


Smáfuglarnir á AMX hafa síðan haldið þessu þema á lofti með því að beinlínis kalla Þorvald þagnameistara, eins og sjá má hér, hér, hér, og hér. Skafti Harðarson hefur einnig tekið þátt í þessu; það má sjá hér, hér og hér.


Athyglisvert er að í öðrum pistli Skafta þarna vísar hann í pistil Smáfuglanna með orðalaginu 'Þar er bent á að Þorvaldur Gylfason sem kallaði annan mann þagnameistara honum til háðungar hefur þagað í fimm ár um vammir og skammir Baugsfeðga.Þetta er auðvitað athyglisvert í ljósi þess að í fyrsta þagnameistarapistli Skafta, sem er skrifaður um mánuði áður, bendir Skafti einmitt á þetta sjálfur. Orðalagið er því undarlegt; eðlilegra væri að Skafti segði sem svo að þarna væru Smáfuglarnir að taka undir með honum, í stað þess að láta sem þetta séu einhverjar nýjar upplýsingar (eins og orðalagið bendir til, að mínu mati). Þetta er þó lítið atriði, en engu að síður vert að minnast á.


Nú má vera að eftirfarandi teljist ómálefnalegt, en í öllu þessu tali um þagnameistara er erfitt annað en að minnast þess að Hannes Hólmsteinn hefur sjálfur lýst því hvernig hann ákvað að gerast þagnameistari þegar kemur að Davíð Oddssyni:
Mér þótti þetta miður. Ég sagði Gunnlaugi Sævari strax frá þessu samtali, og hann ráðlagði mér að skýra afstöðu mína betur út fyrir Davíð. Ég settist niður og skrifaði Davíð stutt bréf, þar sem ég gerði þetta, en kvaðst skilja sjónarmið hans mjög vel. Þegar öll spjót stæðu á honum (eins og vissulega var í þessu Kínamáli), ættu vinir hans auðvitað ekki að gera neitt það, sem skilja mætti opinberlega sem árás á hann. Þeir ættu frekar að láta gagnrýni sína í ljós við hann beint og milliliðalaust. Sá er vinur, sem til vamms segir, en máli skiptir, hvar það er gert og undir hvaða formerkjum.
Sumsé; þessi stjórnmálaprófessor hefur viðurkennt opinberlega að hann hafi ákveðið árið 2002 að láta aldrei frá sér nokkuð sem 'skilja mætti opinberlega sem árás á Davíð', heldur frekar tala við hann sjálfan í kyrrþey (en miðað við hvernig þessu tiltekna máli lyktaði hvarflar nú að manni að þessi leið hafi frekar verið líkleg til að enda með því að Davíð sannfærði Hannes, en öfugt). Þessu virðist Hannes líka hafa fylgt stíft eftir, og gott betur; prófessorinn hefur ekki einungis látið hjá líða að gagnrýna Davíð eða nokkuð sem honum tengist, heldur hefur hann varið hann af fullri hörku í opinberri umræðu þegar svo ber undir, og ráðist gegn andstæðingum hans. Vináttan við Davíð gengur fyrir, eins Hannes segir sjálfur; hún er greinilega æðri til að mynda öllum akademískum skyldum. Það sem er þó kannski alvarlegast er að Hannes viðurkennir ekki opinberlega að hann hafi tekið þessa ákvörðun fyrr en hátt í átta árum síðar, þannig að í millitíðinni var hulin fyrir almenningi sú staðreynd að þessi fræðimaður hafi meðvitað og markvisst beitt þessari reglu í málflutningi sínum.


Að lokum má nefna að það er viss kaldhæðni fólgin í því að þessi pistill minn komi beint á eftir pistli þar sem fjallað er um þögn prófessorsins í öðru máli, en það er tilviljun ein; ástæðan fyrir þessum pistli er nýjasti pistill Skafta, þar sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur bæst í hóp þagnameistara.

No comments:

Post a Comment